8.11.10

Döðlukaka

Uppskriftin af Döðlu-súkkulaðikökunni er úr Gestgjafanum (13. tbl 2007, bls 32).

Kaka:

250 g döðlur

3 dL vatn

1 tsk matarsódi

100 g smjör, mjúkt

130 g púðursykur

2 egg

150 g hveiti

120 g súkkulaði, saxað

Hitið ofninn í 180 °C. Setjið döðlur í pott ásamt vatni og látið suðuna koma upp. Látið bíða í 5 mín. Stráiðð matarsóda yfir. Maukið í matvinnsluvél eða sláið kröftuglega saman. Hrærið saman smjör og sykur, bætið eggjum út í, fyrst öðru svo hinu, hrærið vel saman. Bætið döðlumauki út í ásamt hveiti og súkkulaði og blandið vel. Setjið deigið í smurð form og bakið í 25-30 mín.

Sósa:

120 g smjör

100 g púðursykur

1/2 tsk vanilludropar

3/4 dL rjómi

Blandið öllu saman og látið sjóða í 5 mín. Berið kökuna fram heita eða volga með heitri sósunni og vænum slurk af þeyttum rjóma.

Njótið vel!

Tælensk linsu- og kartöflusúpa

Tælensk linsu- og kartöflusúpa
  • 1/2 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 tsk red currypaste (gott frá thai-choice, gott að eiga í ískápnum)
  • 1 tsk rifið engifer
  • 2 dl rauðar linsur
  • 6dl vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • ca. 1 1/2 dl kókosmjólk
  • 2 tómatar
  • 1 meðalst.kartafla
  • 1 lime
  • 1 rautt chili
  • salt
  • kóríander
  • Gott að bæta út í 2 limeblöðum eða sítrónugras ef maður á til

Gera:
Hellið olíu í pott, setjið út í lauk, hvítlauk og chili, steikið í ca. 2 mín. Bætið svo linsum,kartöflum og tómötum út í og steikið í 1-2 min. í viðbót, hellið þá yfir soðinu (vatnið og teningurinn) Fáið upp suðu, og látið svo sjóða í nokkrar mínutur og lækkið svo aðeins undir og látið malla. Rífið smátt börkinn af lime út í og notið svo líka safann úr því, ca. 1-2msk. Látið kókosmjólkina og engifer út. Látið ca. lúkufylli af kóríander út í. Saltið aðeins. Malla aðeins. Bera svo fram með kórander ofan á. Einnig er gott að rista möndluflögur, og dreifa yfir. Verði ykkur að góðu!

Það er líka hægt að bæta grjónum út í afganginn og láta inn í tortillu.

23.4.10

Chilli con carne

1 kg nautahakk
3 msk olía
3 laukar saxaðir
5 hvítlauksgeirar
3 msk milt chilliduft
2 msk paprikuduft
2 msk kummin
1 msk oregano
1/2 tsk kanell
nokkur meðalsterk chillialdin fræhreinsuð og söxuð
1 græn paprika söxuð
1 rauð paprika söxuð
700 g tómatar saxaðir
1 dós tómatmauk (puré)
2 flöskur af léttöli
salt
2 dósir nýrnabaunir
e.t.v. cayennepipar

Aðferð:
olían hituð og laukurinn og hvítlaukurinn látinn malla í nokkrar mínútur. Hitinn hækkaður dálítið, kjötið sett út í og búnað. Chilliduft, paprikuduft, kummin, oregano og kanell sett út í og látið malla í 5-10 mín. Þá er chillialdin, paprikan, tómatarnir og tómatmaukið og ölið sett út í. Saltað og látið malla í opnum potti í um 2 klst en gætið þess að vökvinn gufi ekki alveg upp. Smakkað og e.t.v. kryddað með cayennepipar. Baunirnar hitaðar og bornar fram með (ég set þær út í kássuna). Með þessu mætti bera fram rifinn ost, grænt salat, tortilluflögur, sýrðan rjóma, saxaðan lauk, lárperur og súrsuð jalpeno aldin.

20.4.10

Hnetusmjörsdraumur - alls ekki fyrir Úur

Hér kemur uppskrift af hnetusmjörsköku (glúteinlaus - ekkert mjöl í henni) sem mér þykir afar góð. Hún er sérlega fljótleg.


200 gr kókosmjöl
80-90 gr agave sýróp
4-5 msk gróft lífrænt hnetusmjör (venjulegt hnetusmjör - amk það sem ég hef rekist á hér í búðum - inniheldur herta fitu (ekki gott!) og sykur (ekki heldur gott:)
2 msk KALDPRESSUÐ kókosolía (setja krukkuna í 38 gráðu vatnsbað og þá verður hún fljótandi mjög fljótt)


Allt sett í matvinnsluvél og blandað vel saman. Sett í eldfast hringlaga mót (pressað niður í mótið með höndum eða sleif) og inn í frysti.

Kremið:

1 plata af lífrænu 70% súkkulaði eða bara venjulegt 70 % súkkulaði
1/2 dl rjómi ca.

Þetta tvennt brætt saman voða rólega á lágum hita.


Sett á kökuna og hún svo geymd í frysti. Geymist þar lengi lengi og þið getið fengið ykkur bita og bita þegar þannig liggur á ykkur.

Bestu kveðjur og gangi ykkur vel

Ebba

p.s. Kókosolían má verða fljótandi og hörð til skiptis. Ég nota mína mjög hratt til að steikja upp úr (hún er mjög hitaþolin) og í alls kyns hráfæðirétti og "semí" hráfæðirétti eins og þessa köku hér fyrir ofan:) og geymi hana því aldrei í ísskáp. Ég er svo með aðra krukku inni á baði og hana nota ég sem krem á líkamann eftir sturtu/sund og nota einnig kókosolíu til að taka af mér farða á kvöldin. Kókosolían er náttúrulega sveppadrepandi og bakteríudrepandi.

29.3.10

Nautakjöt með kasjúhnetum og ostrusósu (Guðrún Jóns)

300 g nautakjöt , meyrt, t.d. lundir
2 msk jarðhnetuolía
2 cm engiferbiti , rifinn eða saxaður smátt
2 hvítlauksgeirar , saxaðir smátt
1 blaðlaukur , skorinn í þunnar sneiðar
1 paprika , fræhreinsuð og skorin í ræmur
100 g sykurbaunir
100 g kasjúhnetur
100 ml vatn
5 msk ostrusósa
3-4 msk hrísgrjónavín eða þurrt sjerrí

Leiðbeiningar
Kjötið skorið í örþunnar sneiðar. Wokpanna hituð vel, 1 msk af olíu sett á hana og síðan engiferinn og hvítlaukurinn. Veltisteikt í 15 sekúndur en þá er kjötinu bætt á pönnuna, nokkrum sneiðum í senn, og veltisteikt í um 1 mínútu hver skammtur. Tekið upp með gataspaða og sett á disk. Afgangurinn af olíunni settur á pönnuna og grænmetið sett á hana, fyrst blaðlaukurinn, þá paprikan og loks baunirnar og hneturnar, og veltisteikt við háan hita í 2-3 mínútur. Tekið upp með gataspaða og sett á annan disk. Vatninu hellt á pönnuna og látið sjóða í 1 mínutu. Ostrusósu og víni hrært saman við og þegar suðan kemur upp er kjötið og grænmetið sett aftur á pönnuna og veltisteikt í 1 mínútu, eða þar til allt er heitt í gegn og þakið sósu. Borið fram strax með soðnum hrísgrjónum.

Kylling/kokos suppe

300 g kjúklingabringur (skornar í þunna strimla)
Safi af 2 lime
1 rauður chili (fræhreinsaður og skorinn í litla bita)
50 g rifinn engifer (með safanum)
25 g strásykur
3 msk fiskisósa
2 hvítlaukslauf (pressuð)
1 msk Masman karry-pasta
1 dós kókosmjólk
1,5 bolli vatn eða kjúklingakraftur
Fersk kóríanderblöð

Hitið olíu í potti, steikið karrý-pastað með hvítlauknum.

Blandið við limesafann, engifer og chili og hrærið vel í.

Bætið við kókosmjólkinni og vatninu, og kjúklingnum. Sjóðið í ca 3 mín.

Hrærið sykurinn og fiskisósuna saman við og smakkið til með salti og pipar.

Hellið í skálar og skreytið með ferskum kóríanderblöðum.

"Japanskur" kjúllaréttur Guðrúnar

( fyrir 6 )

4 bringur, skinnlausar.
1/2 bolli olía
1/4 bolli Balsamic edik
2 msk sykur
2 msk soyasósa
Þetta er soðið saman í ca. 1 mín, kælt og hrært í annað slagið meðan
kólnar (ef ekki hrært skilur sósan sig!).

1 poki núðlur (instant súpunúðlur) - ekki krydd.
möndluflögur (3-4 matskeiðar) eða eftir smekk
sesamfræ (1-2 matskeiðar) eða eftir smekk
Þetta er ristað á þurri pönnu, núðlurnar brotnar í smáa bita og þær
ristaðar fyrst því þær taka lengstan tíma, síðan möndlurnar og fræin.
Kælt. (ath. núðlurnar eiga að vera stökkar).
Salatpoki (blandað t.d.)
tómatar(t.d. sherry tómatar)
1 mangó
1 lítill rauðlaukur.

Kjúklingabringur skornar í ræmur og snöggsteiktar í olíu. Sweet hot
chillisósu hellt yfir og látið malla í smá stund.
Allt sett í fat eða mót. Fyrst salatið, síðan núðlugumsið ofan á svo
balsamic blandan yfir og að síðustu er heitum kjúklingabringuræmunum dreift
yfir.
Borðað með hvítlauksbrauði.
Ath. gott er að geyma eitthvað af sósunni og bera fram með réttinum. Sósan
er líka góð með brauðinu

Gulrótarsúpa Írisar

60 g smjör
750 g gulrætur
1 laukur
1 hvítlauksrif
10 cm engifer
3 sellerístilkar
salt og pipar
1 L grænmetissoð
1 msk hunang
1 lárviðarlauf
125 mL rjómi eða ein dós af sýrðum rjóma
Ferskt kóríander eða steinselja til skrauts

Gera: Smjörið er brætt og smátt skorinn laukur, hvítlaukur, engifer, sellerí og gulrætur sett í smjörið og hitað vel í 20 mín eða nógu lengi til að gulræturnar verði mjúkar. Þá er soði bætt út í, hunangi, lárviðarlaufi, salt og pipar og súpan soðin í 10 mín eða svo. Þá er lárviðarlaufið fjarlægt og súpan maukuð. Ef vill má þynna hana aðeins með vatni og bæta svo rjóma út í og hita að suðu, bera svo fram með smátt skornu kóríander eða steinselju. Það má einnig sleppa rjómanum en bera hana þess í stað fram með vættni slettu af sýrðum rjóma auk kryddjurta.

Áfram með sjörið!

kv. Íris.

26.3.10

Hart skorpubrauð frá tengdó

5 dl. kalt vatn í kitchenaid hrærivélaskálina - nota K spaðann og setja vélina í gang á hægustu stillingu.
Smátt og smátt út í 9 - 9.5 dl. hveiti.
þá 1 bréf ger
og 2 tsk salt og hræra kröftuglega.
síðan ólífuolíuber ég hendurnar,
tek á þessu mjúka deigi og mynda kúlu, plastfilmu yfir og á kaldan stað í 5 tíma.
taka út,
forma 3 löng brauð og láta jafna sig í hálftíma.
Síðan í ofn, á heitustu stillingu, um leið og þú setur plötuna inn á að skvetta ausu fullri af vatni á ofnborninn og loka. 8 mín., þá lækka hitann í 200 í 18 mín.

Frönsk gúllassúpa úr þrítugsafmæli Sigrúnar

400 g nautakjöt í bitum
2 msk matarolía
1 laukur
1 búnt steinselja
2 msk tómatmauk
1 tsk timjan
salt og svartur pipar
2 lárviðarlauf
2 dl rauðvín
8 dl kjötsoð (vatn og 2 teningar)
2 gulrætur
4 meðalstórar kartöflur
1 blaðlaukur
100g sveppir
3 sneiðar beikon
2 hvítlauksrif

Aðferð:
1. Brúnið kjötið í olíunni í potti
2. Saxið laukinn og steinseljuna með stilkunum. Bætið út í pottinn lauki, steinselju (geymið smávegis til að skreyta með), tómatmauki, timjani, salti, pipar, lárviðarlaufi, rauðvíni og kjötsoði og látið sjóða við vægan hita í 50 mínútur.
3.Flysjið kartöflurnar og skerið þær og gulrætur í bita. Setjið gulrætur og kartöflur út í súpuna og látið sjóða í 15 mínútur.
4. Sneiðið blaðlauk og sveppi og léttsteikið ásamt beikoni. Setjið út í súpuna ásamt pressuðum hvítlauknum. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Kryddið ef með þarf.
5. Stráið afgangnum af steinseljunni yfir súpuna rétt áður en hún er borin fram.

14.8.09

Geggjuð döðlukaka- sem ekki þarf að baka

Heilsusamlegur eftirréttur. Kakan flokkast undir hollt nammi (úr fréttablaðinu 8.-9. ágúst 2009)
500 g döðlur
60-70g kókosolía
50-100 g Síríus suðusukkulaði, brytja
1 bolli haframjöl (1 bolli = 2 1/2 dl)
2 bananar
kókosflögur

Döðlurnar eru hitaðar í potti og maukaðar. Stappaðir bananar sett út í ásamt haframjöli og kókosolíu. Maukið sett í eitt stórt form eða tvö lítil og haft í kæli (eða frysti) í smá tíma. Síðan er kókosflögum, ferskum jarðaberjum og brytjuðu suðusúkkulaði sett ofan á og kakan borin fram með þeyttum rjóma.

Brokkólífiskur Andreu

Já mar, gamla góða gullufisksuppskriftin er góð á mánudagskvöldum :) Ótrúlega retró heimilisfræðistemmning sem er eitthvað soldið mömmuleg. Hljómar ca svona:

1. Fiskur settur í fat (t.d. ýsa eða þorskur)

2.Allt grænmeti sem er til á heimilinu sett ofaná (t.d. brokkólí, gulrætur, sveppir, papríka, laukur osfrv). Það má steikja það fyrst á pönnu með t.d. hvítlauk ef maður vill en stundum nenni ég því ekki og set það bara í beint í fat versgú sem virkar bara fínt.

3. Svo bræðir maður piparost í potti með mjólk og kryddar með hvítlauk og e.t.v. smá krafti.
Svo hellir maður sósunni yfir fiskinn og grænmetið og setur rifinn ost yifr.

4. Skellt inn í ofn á ca 180 eða svo þar til allt heila klappið er eldað skiluru.
Borið fram með hrísgrjónum, e.t.v salati og brauði.

p.s. eða ef það er mánudagur og ekkert til þá má setja bara þá osta sem til eru á heimilinu, t.d. rjómostur, smurostur, camembert osfrv og hvítlauka þetta og krydda í drasl. Það er líka hægt að taka twist á þetta með mismunandi kryddi. Gulla setur t.d. stundum karrý og gerir karrýútgáfu, lætur þá stundum ananas í þetta sem er líka gott.

Bananamuffur Sigrúnar Helgu

Mmmmmm, ég fæ bara vatn í munnin af því að senda þér uppskriftina! Enjoy :)

Stórfenglegar banana- og súkkulaðibitamúffur
200 gr. hveiti
1 ½ tsk. lyftiduft
150 gr. sykur
1 egg
125 gr. smjör, bráðið
3 msk. mjólk
½ tsk vanilluessens (vanilludropar)
3 bananar, vel þroskaðir (má líka setja minna þroskaða banana í örbylgjuofn í 1-2 mín).
100 gr. súkkulaðidropar/bitar (ég nota Síríus konsúm mmm...)

Ofninn er hitaður í 180 gráður. Hveiti, lyftiduft og sykur hrært saman í skál. Egg, smjör, mjólk og vanilluessens hrært saman í annarri skál og síðan blandað saman við en reynt að hræra sem minnst. Bananarnir stappaðir með gaffli og hrært saman við ásamt súkkulaðidropunum. Skipt á 12 smurð eða pappírsklædd múffuform (ég á sílíkonform, nema hvað) og bakað í 25-30 mínútur (í mínum ofni eru 22-23 mínútur nóg), eða þar til múffurnar eru gullinbrúnar og hafa lyft sér vel.

7.8.09

Klessukaka

Fyrir 6

3 dl sykur
3 egg
2 1/2 dl hveiti
3 msk kakó
1 msk vanillusykur
125 g brætt smjör
(ég set líka yfirleitt smá salt)

Þeytið saman sykri og eggjum og hrærið svo þurrefnunum saman við. Hellið bræddu smjörinu út í og hrærið. Hellið deiginu í form sem er ca 24 sm í þvermál og bakið í 150°C heitum ofni í 30-35 mínútur.

Jarðhnetusósa

Fyrir 4

8 msk ristaðar hnetur
4 msk olía
1-2 msk rautt karrýmauk
2 1/2 dl kókosmjólk
5 dl kjúklingasoð
2 msk sykur
2 msk sítrónusafi
  1. Grófsaxið hnetur og setjið til hliðar.
  2. Hitið olíuna á pönnu eða í lágum potti. Setjið karrýmaukið út í. Hrærið vandlega í nokkrar sekúndur.
  3. Hellið kókosmjólkinni út í. Hrærið og eldið í fáeinar sekúndur.
  4. Bætið kjúklingasoði, sykri, salti og sítrónusafa saman við. Hrærið stöðugt.
  5. Setjið jarðhneturnar saman við. Hrærið vandlega.
  6. Berið fram með kjúklingaspjótum.

Grilluð satay-kjúklingaspjót

Fyrir 4

800 g kjúklingabringur
4 msk ljós sojasósa (ég notaði bara venjulega sojasósu)
8 msk olía
2 msk Madras-karrý
2 1/2 dl kókosmjólk
6 msk sykur
grillpinnar

  1. Skerið kjúklingabringurnar á lengdina í bita sem eru u.þ.b. 7 cm langir, 4 cm breiðir og 5 mm þykkir (ég skar hverja bringu í þrennt).
  2. Setjið kjúklingastrimlana í skál ásamt öllu öðru hráefni.
  3. Setjið í kæli og geymið í átta tíma eða yfir nótt.
  4. Þræðið kjúklingastrimlana uppá grillpinna.
  5. Grillið kjúklingaspjótin á grillpönnu eða á útigrilli í 6-8 mínútur eða þar til þau eru gegnumsteikt. Snúið spjótunum á meðan á steikingu stendur.
  6. Berið fram með jarðhnetusósu og hrísgrjónum.