19.10.04

Kalt kjúklingasalat

Fyrir 4

Þetta er einstaklega góður réttur og fyrirtaks máltíð með brauði. Ekki spillir fyrir að hann er léttur í maga og ef notað er léttmajones og léttmjólk þá inniheldur hann ekki margar hitaeiningar. Ferskt dill er mun betra í þennan rétt frekar en þurrkað. Sósan í þessu salati er einnig einstaklega góð á blandað grænt salat og sem ídýfa. Upplagt er að nota kjöt af unghænum. Einnig er hægt að nota afganga af kalkúninum ef hann hefur verið á borðum. Það er gott eftir hátíðarnar að hafa eitthvað létt í maga og buddu.

1-2 spergilkálshausar, fer eftir stærð
2 msk. jarðhnetuolía eða önnur olía.
1 – 1 ½ kjúklingur eða unghæna (steikt eða soðið) eða ca. 3 bringur
1 bolli steinselja, niðurklippt
4 vorlaukar, niðurbrytjaðir

Hausinn og u.þ.b. hálfur stilkur af spergilkálinu er notað, skorið í bita og soðið við vægan hita í vatni með olíu út í í u.þ.b 3-5 mín. Eftir stærð bitanna. Skolið spergilkálið strax úr köldu vatni. Skerið þá kjúklingakjötið í bita og blandið öllu saman.

Sósan:
½ bolli kotasæla
½ bolli majones
½ bolli mjólk
1 msk. ólífuolía
2 msk. vínedik eða sítrónusafi
1/8 tsk. sykur
1 marið hvítlauksrif
salt og nýmalaður svartur pipar
1-2 tsk. dill ef það er þurrkað. En ef notað er ferskt dill sem er betra er í lagi að nota mun meira.

Hrærið saman með gaffli eða sleif og blandið síðan við kjúklinginn og grænmetið. Kælið í a.m.k. 6 klst. áður en rétturinn er borinn á borð.

Til að gera réttinn enn léttari er í lagi að nota meira af kotasælunni og minna af léttmajonesinu/majonesinu og fituminni mjólk.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home